Velkomin aftur!

Góðan daginn og verið velkomin aftur á síðuna!

Eftir þriggja mánaða pásu hefjum við loksins göngu okkar á ný. Við getum ekki beðið eftir að sýna ykkur nýtt efni á hverjum einasta degi, frá mismunandi höfundum.

Fyrst minnst er á höfunda, við leitum eftir fólki!

Hefur þú áhuga á bókmenntum? Vilt þú skrifa fyrir bókaflóð?

Við leitum eftir einstaka aðsendum greinum, smásögum og ljóðum, en einnig að reglulegum höfundum, hvort sem þú vilt skrifa einu sinni í viku eða einu sinni í mánuði. Hefur þú áhuga? Sendu tölvupóst á netfangið bokaflodblogg@gmail.com með upplýsingum um þig og jafnvel smá “prufu”, þ.e. eitthvað sem þú hefur skrifað. Við svörum öllum eins fljótt og auðið er!

En nú að öðru.

NaNoWriMo!

Hver hefur heyrt um það?

NaNoWriMo stendur fyrir National Novel Writing Month.

NaNoWriMo á sér stað í Nóvember á ári hverju. þar er takmarkið fyrir hvern og einn að skrifa 50.000 orð af bók. Jæja, 50.000 hljómar mjög mikið, ekki satt? Það er einmitt málið. NaNoWriMo snýst um að slökkva á gagnrýni heilans. Einfaldlega skrifa án þess að hugsa.  Í besta falli færðu út bókina þína í mjög grófum dráttum, í versta falli verður þetta mjög góð æfing fyrir þig. Í öllu falli muntu þurfa að endurskrifa meiri hluta bókarinnar ef þú ætlar þér að gera eitthvað úr henni. Hlutverk NaNoWriMo er að koma þér af stað, láta þig byrja á því sem þú hefur ætlað þér lengi.

Á vefsíðu NaNoWriMo getur þú fundið stuðning, hvatningu, ráð og margt fleira sem hjálpar þér í gegnum mánuðinn. Þar er einnig orðateljari sem þú fyllir inn í á hverjum degi til þess að sjá hve langt þú hefur náð. Markmiðið er 50.000 orð, og það byrjar í dag, sunnudaginn 1. nóvember! Eftir hverju ertu að bíða?

Viljir þú vita meira um NaNoWriMo og hvernig best sé að framkvæma þennan mánuð mæli ég eindregið með bókinni No Plot? No Problem! eftir Chris Baty, sem er stofnandi NaNoWriMo. Næsta mánuðinn mun einnig koma inn heilmikið af leiðbeiningum og hvatningu, bæði beint frá okkur og umorðað upp úr bókinni. Til dæmis verður hver mánudagur í Nóvember helgaður NaNoWriMo! Í hverri viku verður farið yfir markmið vikunnar, hvernig þér gæti liðið þessa viku og ráð.

Svo fylgstu með, því hér mun hrannast inn nýtt efni á næstu dögum!

-DG

Advertisements

15 ritunaræfingar til að bæta stíl og hugsunarhátt.

 1. Veldu tíu manneskjur sem þú þekkir eða veist um og skrifaðu einnar setningar lýsingu fyrir hverja og eina. Einbeittu þér að því sem gerir hverja og eina manneskju einstaka og athyglisverða.
 2. Taktu upp fimm mínútur af spjallþætti í útvarpinu. Skrifaðu niður samtölin og bættu við lýsingum á manneskjunum sem tala og hreyfingum þeirra líkt og þú værir að skrifa þitt eigið atriði.
 3. Skrifaðu 500-orða samantekt af lífi þínu. Hugsaðu um augnablikin sem þér þykir einna vænst um og sem mótuðu manneskjuna sem þú ert í dag.
 4. Skrifaðu þína eigin líkræðu. Skrifaðu um öll þín helstu afrek og dáðir. Þú getur skrifað eins og þú hafir dáið í dag, eða eftir fimmtíu ár eða meira.
 5. Skrifaðu 300-orða lýsingu af herberginu þínu. Hugsaðu um hlutina sem þú átt og allt sem þú geymir í herberginu þínu sem gefur utanaðkomandi hugmynd um hver þú ert eða hver þú vilt að aðrir haldi að þú sért.
 6. Skrifaðu viðtal við þig sjálfa/n, kunningja þinn, þekktan einstakling eða sögupersónu. Skrifaðu á formlegan máta sem fyndist í þekktum tölublöðum eða fréttablöðum.
 7. Lestu blaðagreinar eða fréttir á netinu og finndu eitthvað sem þér þykir áhugavert. Notaðu þá grein sem grunnatriði í nýja sögu eða atriði.
 8. Haltu dagbók fyrir sögupersónu. Skrifaðu eitthvað í hana á hverjum degi í tvær vikur.
 9. Endurskrifaðu atriði úr bók. Veldu þér atriði sem þér þykir áhugavert, skemmtilegt, fyndið, sorglegt eða bara hrikalega leiðinlegt, og endurskrifaðu það í öðruvísi stíl en það er upphaflega. Rómantík getur orðið að hrylling, sorg getur orðið að húmor og morð getur orðið að leikaraskap. Þitt er valið.
 10. Veldu þér rithöfund sem þér líkar við, þarf ekki að vera þitt uppáhald. Gerðu lista af hlutum sem þér þykja aðdáunarverðir í skrifum hans/hennar. Skrifaðu fyrst út frá minni, án þess að kynna þér skrifin betur. Eftir að listinn er tilbúinn geturðu lesið eitthvað frá höfundinum aftur og bætt við eða breytt listanum. Taktu eftir hvaða eiginleika úr skrifunum þú getur tileinkað þér í þínum eigin, og hvaða eiginleika þú ættir ekki að taka upp. Mundu að þinn skrifstíll er einstakur. Hugsaðu einungis um leiðir til að bæta hann. Aldrei reyna að herma eftir öðrum rithöfundum í meira en eina eða tvær æfingar.
 11. Veldu eitthvað sem þú hefur skrifað og endurskrifaðu það í einhverri annarri persónu. (t.d. 1.p. – 3.p.) Einnig geturðu reynt að breyta tíð sögunnar, (nútíð-þátíð) sögumanni (sá sem segir söguna) og fleiri atriðum sem varða stílsatriði sögunnar. Ekki gera þetta við heila bók. Haltu þig við stuttar sögur. Þegar þú velur þér stíl fyrir bók, ekki horfa aftur, haltu þig við þann stíl eða þú munt eyða öllum þínum tíma í að endurskrifa í stað þess að skrifa.
 12. Finndu þína fyrstu minningu. Skrifaðu niður allt sem þú manst um hana. Skrifaðu hana niður sem atriði. Þú getur ákveðið að gera þetta frá nútíma-sjónarhorni þínu eða því sem þú hafðir á þeim aldri.
 13. Taktu fram gamalt rifrildi sem þú áttir við einhvern. Skrifaðu um rifrildið frá sjónarhorni hinnar manneskjunnar. Mundu að hugmyndin er að sjá rifrildið frá þeirra hugsunarhætti, ekki þínum eigin. Þetta er æfing í að gefa persónum rödd, ekki til að sanna að þú hafir rétt eða rangt fyrir þér.
 14. Skrifaðu 200-orða lýsingu á stað, eða lengri. Þú getur notað öll skynfærin, nema sjónina. Þú getur lýst fyrir lesanda hvernig tilfinning kemur yfir mann þegar maður stendur þar. Hvernig lyktar staðurinn? Hvernig hljómar umhverfið? Bragðast hann einhvernveginn? Reyndu að skrifa á þann máta að enginn sakni þess að hafa ekki hugmynd um hvað maður sér þar.
 15. Sestu inn á veitingastað eða annan stað með miklum fjölda fólks og skrifaðu niður bútana af samtölum sem þú heyrir í kringum þig. Hlustaðu á talsmáta, raddir og hreima. Þegar þú hefur gert þetta getur þú leikið þér í kringum samtölin með því að ákveða sögu þeirra og framtíð. Skrifaðu þína útgáfu af því sem kemur næst. Skrifaðu eins og þau myndu tala.

– KBB

Þríleikir

The hunger games, The maze runner, Delirium, CClockwork angellockwork angel, Divergent og Fifty shades of grey eru dæmi um þríleiki sem hafa verið vinsælir undanfarið. Allt eru þetta sæmilegar sögur með áhugaverðum persónum og góðum söguþræði, og er stærsta vandamálið við bækurnar (að mínu mati) að þær eru settar saman í þríleik.

Þríleikir eru áhugavert form af bókaflokki, en undanfarið hefur það komist í tísku svo það hefur verið ofnotað, og þar með notað þar sem ekki á endilega við. Fyrsta bókin ætti að vera kynning á sögunni, persónunum og aðstæðunum. Önnur bókin á þá þann möguleika á að innihalda stærstu ævintýri sögunnar, og sú þriðja, og seinasta, lokar sögunni og gerir það að verkum að maður skilur við bókina vitandi allt sem þarf til að sagan verði fullnægjandi.

Það sem hefur verið að gerast undanfarið er að höfundar teygja og toga söguþráðinn á alla vegu til að koma honum fyrir í þrjár bækur. Að sjálfsögðu er þetta góð leið til að græða pening, en er það virkilega aðalmarkmið nútímahöfunda?

Oft gerist það að fyrsta bókin vekur athygli lesanda svo hann þyrstir í þá næstu, og til að byrja með er næsta alveg sæmileg. En þegar komið er að þriðju bókinni er allur áhugi farinn og afþreyingin verður ekki eins góð og hún hefði getað orðið. Óþarfa lenging skapar óþarfa samtöl, atvik og jafnvel persónur, sem gerir það að verkum að bækurnar verða minna og minna áhugaverðar og að lokum eru meiri líkur en minni að lesandi gefist upp og hætti að lesa.

Og svo er víst nauðsynlegt að minnast á að þríleikjum fylgja oftast fjórar myndir… Jájá, gott sölutrikk, en hefur maður nennu í þetta?

The Maze runner – James Dashner

The maze runner

Just follow me and run like your life depends on it. Because it does.

Sagan fjallar um hóp drengja sem lifa í risastóru völundarhúsi, minnislausir og fangaðir af óþekktum aðilum. Á mánaðar fresti kemur nýr strákur upp með lyftunni sem færir þeim einnig fæði og fatnað, en þegar Thomas kemur upp með lyftunni einn daginn fara hlutir að breytast. Þegar furðulegir hlutir finnast og gerast í völundarhúsinu, meiri árangur fæst á nokkrum dögum en hefur í tvö ár, og lyftan færir þeim meira en bara mánaðarlegu byrgðir þeirra fara þeir að óttast hvað bíður þeirra.

Bókin er fyrst í þríleik sem hefur gripið athygli allra aldurshópa um allan heim og einnig er til fjórða bókin sem er forsaga þess sem gerist í þríleiknum. Þetta er spennandi og tilfinningaþrungin saga sem dregur mann með sér í ævintýri sem maður vill aldrei hætta að lesa um. Persónurnar eru vel hannaðar og skrifaðar, og auðvelt er að tengjast þeim og skilja þær. Staðurinn er vel útskýrður og mjög vel hannaður, svo maður getur tengst bókinni sérstaklega vel, þar sem auðvelt er að ímynda sér allt sem er að gerast. Ég mæli eindregið með þessum bókum, og vara þig við, þú munt ekki leggja bókina frá þér fyrr en hún klárast, og þá verður strax hlaupið í næstu.

Einnig er til álíka vinsæl bíómynd sem gerð var eftir bókinni, en þeir sem hafa lesið bókina hafa fátt gott að segja um þá mynd. Já, það er satt, myndin er ekkert smá vel gerð og leikin, en hún er ekki lík bókinni. Handritshöfundar virðast hafa lesið aftan á bókina, skilið söguþráðinn, en ekki nennt að lesa sjálfa bókina. Mæli með að horfa á myndina, þar sem hún er alveg sæmilega góð afþreying, en lestu bókina fyrst, og ímyndaðu þér bara að þetta sé sitthvor sagan. Það verður auðvelt, því það er fátt líkt með myndinni og bókinni 😉

– KBB

Hugarkort

Ein hugmynd til þess að byrja söguna sína er að búa til hugarkort (mind map). Hugarkort er leið til þess að spinna heilan söguþráð út frá einni setningu, eða jafnvel einu orði.

Myndin hér að ofan er dæmi um hugarkort. Þetta hugarkort kennir manni hvað? Já, að búa til hugarkort. Miðjan er fyrsta hugmyndin þín. Sú hugmynd getur til dæmis verið varúlfur. Út frá þessari miðju gerir þú greinar og finnur hugmyndir út frá miðjunni. Úr þessum greinum býrðu til nýjar greinar og svo framvegis. Láttu hugann reika, skrifaðu hvað sem þér dettur í hug.

Fyrir þá sem vilja er hægt að láta listahæfileikana skína. Notaðu marga liti, gerðu þetta skemmtilegt og áhugavert. Svo getur þú haldið endalaust áfram.

Annað sem mörgum þykir þæginlegra er að nota tæknina. Það er hægt að setja inn “öpp” í síma eða önnur raftæki og gert þetta allt þar. Dæmi um svoleiðis öpp eru “Simple Mind” og “Mindly”, en þau fást bæði á apple og android.

Gangi ykkur vel!

-DG

Smásaga vikunnar!

Dagbókarfærsla úr heimstyrjöld nr.3

Sabeen Azmeh

17. Mars. 2054

einhversstaðar í Sýrlandi

Kæra dagbók

Ég hef ekkert til að borða, og er ekkert smá svöng, hef engan stað til að sofa á, og fjölskyldan mín hefur ekki fundið mig ennþá. Ég hef ákveðið að halda kyrru hérna í einhvern tíma vegna þess að ég hef heyrt að hér hafi ekki verið sprengingar um nokkurt skeið.

Ég hitti lítinn strák um daginn. Held það hafi verið fyrir þremur dögum, ég man það ekki alveg. Hann var skemmtilegur. Eða, kannski var bara gott að fá vott af mannlegum samskiptum eftir svona langan tíma ein. Hann sagðist vita um mat og hljóp til að ná í fyrir okkur bæði… ég hef ekki séð hann aftur eftir það.

Ég hef heldur ekki heyrt í neinum sprengingum. Ég vil ekki trúa því að hann hefði bara skilið mig eftir til að deyja, ein. En það er samt skársti möguleikinn. Ef ekki það þá hlýtur eitthvað að hafa gerst við hann, og ég vil ekki að það sé satt.

Hann sagði mér að hann hefði ekki séð fjölskylduna sína í svo langan tíma að hann hafði ekki tal á því hversu lengi.

Okkur kom ágætlega saman þennan dag sem við hittumst.

Hann sagðist heita Asmashan Noury.

Við töluðum saman allan daginn og nóttina, það var ekki fyrr en um morguninn sem hann hljóp til að sækja handa okkur mat, mikið vildi ég að ég hefði annað hvort beðið hann um að fara ekki, eða farið með honum. Þá myndi ég allavega vita hvað hefði orðið um hann. Ég myndi velja dauða yfir þessa óvissu. Ég hef oft hugsað um að enda líf mitt, komast í burtu frá öllu þessu. En í hvert sinn sem ég hugsa þannig, hugsa ég líka um fjölskylduna mína. Mömmu og pabba, litlu tvíburana sem alltaf gerðu mér lífið svo leitt að mig langaði helst að losa mig við þá. (Núna þegar ég er laus við þá, þá finnst mér það ekki næstum jafn skemmtilegt og ég hafði ímyndað mér.) Kannski ef við hefðum skilið við aðrar kringumstæður. Kannski ef ég vissi að þeir væru á lífi. En ég vissi að svo var ekki. Amma var líka horfin frá mér og afi. Ég átti líka tvær litlar frænkur og einn eldri frænda sem voru með okkur á flóttanum. Tvíburarnir voru fyrstir til að deyja. Ég man enn eftir seinasta skiptinu sem ég sá þá saman. Hlaupandi um á akrinum fyrir utan húsið okkar eins og enginn væri morgundagurinn. Það er frekar skrýtið að segja það vegna þess að fyrir þá var það raunin. Þeir hlupu örlítið of langt frá húsinu okkar og voru skotnir til bana af þyrlu sem sveifaði yfir húsinu. Enginn hafði tekið eftir þyrlunni fyrr en hún byrjaði að skjóta.

Mamma var sú fyrsta til að bregðast við. Hún henti öllum krökkunum inn í húsið og hljóp út á akurinn í von um að geta bjargað strákunum sínum. Pabbi náði ekki að stöðva hana og áður en hún var komin til þeirra var hún skotin niður líka. Ég hef aldrei séð jafn hrædda og sorgmædda manneskju og föður minn einmitt þetta augnablik. Hann ákvað samt að hann skyldi hjálpa mér og hinum systkinunum í stað þess að æða beint út í dauðann.

Eftir þetta var ekkert eins. Þegar skothríðin var búin fórum við um nágrennið og skoðuðum ástandið. Þá kom í ljós að margir af nágrönnum okkar höfðu látið lífið. Frændfólk okkar var í sömu sporum og við. Móðirin var dáin og þriggja ára litla stelpan þeirra. Svo þarna vorum við. Tvær sundraðar fjölskyldur saman í niðurníttu nágrenni okkar. Þegar nokkrir dagar höfðu liðið og við vorum búin að jafna okkur örlítið komu hermenn inní þorpið okkar, í þetta sinn var engin þyrla heldur bara hræðilega mikið af skotvopnum sem þeir notuðu til þess að rústa þorpinu enn meira.

Þá dóu flestir í kringum okkur en við náðum að fela okkur frá hermönnunum. Við ákváðum eftir þetta að koma okkur út af þessu svæði.

Við vorum á flótta í þó nokkurn tíma (ég hef misst tak á tímanum yfir þetta tímabil sem hermennirnir hafa reikað um allt) en fyrir einhverjum tíma hurfu þau öll frá mér þegar herinn ákvað að nota reyksprengjur til að fæla alla í burtu af svæði sem átti að byggja herstöðvar á. Ég hef ekki séð þau í frekar langan tíma. Einu mannlegu samskiptin sem ég hef haft síðan þá voru við þennan strák sem ég hitti, og hann er horfinn… ég heyri í fólki fyrir utan skemmuna sem ég er í. Ég held að þetta séu hermenn. Ég er viss um það. Ég er að reyna að róa mig niður með því að skrifa þetta niður. Það er ekki að virka neitt alltof vel. Mér finnst raddirnar færast nær mér með hverri sekúndu sem líður. Hvað á ég að gera? Ó guð, vertu miskunnsamur. Leyfðu mér að hitta fjölskyldu mína aftur. Hvort sem það verður hér eða í einhverju öðru lífi. Þetta getur ekki verið endirinn. Er það? Hver veit. Kannski verður bara léttir að komast í burtu frá þessu öllu. En… hvað með fjölskyldu mína? Eru þau dáin? Kannski mun ég hitta þau aftur ef ég reyni að felast örlítið lengur. Raddirnar eru komnar óþægilega nálægt mér. Kannski ef ég lifi þetta af fara þeir í burtu og ég get farið að leita að fjölskyldu minni. Kannski getum við flúið í burtu. Úr Sýrlandi, kannski meira að segja úr Asíu! Við gætum komist til ameríku og lifað eðlilegu lífi eins og venjulegir krakkar á mínum aldri gera. Kannski gæti ég hitt strák sem myndi líka jafnvel við mig og mér við hann. Kannski gæti ég gift mig. Kannski jafnvel eignast börn. Ó, nei! Raddirnar eru rétt fyrir utan herbergið sem ég er í. Þær færast enn nær. Ég held að ég muni aldrei get hitt þau aftur. Ég held

– KBB

Bók Vikunnar

“Also, dogs are faithful and they do not tell lies because they cannot talk.”

Bók vikunnar er The Curious Incident of the Dog in the Night-time, eða Furðulegt Háttalag Hunds um Nótt eftir metsöluhöfundinn Mark Haddon. Bókin fjallar um strákinn Christopher, en hann getur nefnt öll lönd heimsins ásamt höfuðborgum þeirra og þulið upp allar frumtölur upp að 7.507. Það kemur aldrei fram svart á hvítu en Christopher er með Asperger’s Syndrome.

Ástæða þess að hún var valin bók vikunnar er sú að hún lætur mann skilja aðeins betur afhverju einhverft fólk gerir það sem það gerir, en Asperger’s Syndrome er tegund af einhverfu. Mark Haddon hefur unnið lengi með einhverfum og þroskaskertum börnum og skilur þau því vel. Hann ákvað að miðla þessari þekkingu sinni áfram. Það er undravert hvernig honum tekst að láta mann setja sig í sport Christophers og maður veit þá til dæmis afhverju hann gerir þessi hljóð, lemur lögregluþjón og leikur einkaspæjara.

Þetta er óvenjulega skrifuð bók, eitthvað sem allir ættu að lesa að minnsta kosti einu sinni yfir ævina.

-DG

Umfjöllun um Vefsíðu

Þennan fimmtudag verður farið yfir og fjallað um vefsíðu að nafni theBookDepository (www.thebookdepository.com). Sjálf hef ég aðeins heyrt góða hluti um vefsíðuna. Hún selur allar bækur milli himins og jarðar, en því miður engar á íslensku. Sama hversu sjaldgæf bók er, þú ættir að geta fundið hana þarna. Hún selur einnig fullorðins litabækur eins og eru orðnar svo vinsælar núna. Allar eru þær á frábæru verði.

En það besta er enn eftir;Hver kaup innihalda fría heimsendingu til Íslands! Enginn falinn kostnaður, verðið þrefaldast ekki við það eitt að senda heim til Íslands (eða hvert sem er í heiminum).

Engin síða er þó fullkomin og ég hef séð ýmislegt sagt um þessa síðu á netinu. Það hefur komið fyrir að fólk fái bækurnar skemmdar og þá er víst lítið hægt að gera í því. Oft hefur sendingartími verið langur, en þar sem fyrirtækið er með bækistöðvar sýnar í Bretlandi, nálægt okkur, held ég að það yrði ekki vandamál fyrir Íslendinga.

-DG

Boy meets boy – David Levithan

Sometimes you just have to dance like a madman in the Self-Help section of your local bookstore.

 

Bókin segir frá Paul sem er menntaskólanemi í Ameríku. Paul gengur í skóla þar sem allir eru samþykktir fyrir það sem þeir eru. Klappstýruliðið ferðast um á Harely mótorhjólum, lokaballsdrottningin fæddist í líkama karlmanns og er einnig fótboltastjarna skólans, og félag gagn-og samkynhneigðra var stofnað til að kenna gagnkynhneigðum að dansa.

Höfundur fer óvenjulega leið til að kynna samfélag LGBT fólks, þar sem venjulega eru einungis neikvæðu viðbrögð og skoðanir fólks sýnd.

Þetta er bók sem hver einasti unglingur ætti að lesa því mjög auðvelt er að tengjast persónunum og söguþræðinum. Hvort sem maður getur sett sig í spor Paul þegar reynir á vináttu hans og Joni, bestu vinkonu hans, eða Tony þegar ástarlífið varð erfiðara en hann vildi.

Persónurnar eru vel hannaðar og skemmtilega settar fram. Höfundur gerir manni kleift að kynnast lífi hverrar einustu persónu svo tengingin við söguna verður mun meiri.

Þetta er auðveld bók sem ekki er auðvelt að láta niður áður en lestri hefur verið lokið.

-KBB

Að Finna Söguþráð

Það sem þarf oft á tíðum að gera áður en þú byrjar að skrifa er það að finna hvað þú ætlar að skrifa um. Fyrir suma getur það reynst erfitt, á meðan hugmyndir fljúga fram og til baka í kollinum á öðrum. Þetta er gert fyrir báða hópa. Til þess að finna hugmyndir og koma reglu á þær í höfði þínu.

1. Brainstorming

“Brainstorming”, eða íslenska orðið “hugarflug”. Nú er komin tími til þess að láta hugmyndaflugið ráða. Skrifaði langar setningar, stök orð eða heilar efnisgreinar, því þetta hjálpar allt til þess að finna réttu hugmyndina. Það er líka mjög mikilvægt að lesa, þar sem það gefur þér ýmsar hugmyndir.

2. Byrjaðu að tengja saman hugmyndir

Þegar þér finnst þú hafa nægar hugmyndir til þess að byggja söguþráð getur þú byrjað að tengja saman hugmyndir. Í þessum parti ferlisins er gott að notast við ýmis konar myndrit og hugarkort. Til dæmis, ef þú hefur orðin ananas og fíll, þá getur þú gert sögu um fíl að borða ananas.

3. Sögupersónur

Á þessu stigi eru sögupersónur einfaldar og mjög líkar. Ekki hafa áhyggjur af persónuleika þeirra, hugsaðu frekar um hlutverk þeirra í sögunni. Hver er aðalpersónan? Hvert er illmennið? Hefur sagan eitthvert illmenni? Ef svo er, er hann virkilega hræðilegur eða bara óþægindi fyrir aðalpersónuna? Þessum spurningum vilt þú svara.

4. Umhverfi

Sagan þín þarf að gerast einhversstaðar og þar með er staðsetningin jafn mikilvæg og persónurnar. Ef þú villt láta söguna gerast á stað sem nú þegar er til, til dæmis í raunveruleikanum, þá verður það auðveldara þar sem þú þarft aðeins að hanna litla hluti í stað þess að einbeita þér að stærri myndinni. Raunveruleikinn hefur nú þegar séð um þetta skref, þú mátt fara yfir í skref 6. Ef ekki, lestu áfram.

5. Umhverfi frh. 

Þegar þú býrð til nýtt umhverfi þarftu að ímynda þér hvert einasta litla smáatriði. Ekki missa af litlu hlutunum, eins og hvar fólk (eða hvaða lífverur sem er) vinna eða hvernig það gengur niður götuna, þar sem þessir litlu hlutir geta skipt máli seinna meir. Þú munt líklega búa til mikið fleiri smáatriði en þú munt koma til með að þurfa, en of mikið er betra en of lítið. Í fantasíu sögum eða sögum sem gerast í öðru sólkerfi geta hlutir eins og eðlisfræði, samfélagið og lífverur verið mjög breytilegir.

6. Persónur frh. 

Hér kemur að því að þú loksins býrð til persónurnar þínar, án þess að skilja neitt eftir. Rétt eins og þegar þú bjóst til umhverfið þá muntu líklega fá mikið meiri upplýsingar en þú þarft, en það gæti borgað sig síðar. Spurðu spurninga eins og “Afhverju klæðir persónan sig svona?” og skrifaðu svarið niður hjá þér. Búðu til ímynduð samtöl fyrir persónurnar og ákveddu hvernig þær eru allar tengdar. Mundu að persónurnar munu þróast í gegnum söguna.

7. Samhengi

Hver einasta aðgerð veldur viðbrögðum (einnig þekkt sem “every action causes a reaction”). Engin aðgerð er handahófsleg. Útskýrðu afhverju.

8. Átök

Á þessum tímapunkti ættir þú að vera byrjuð/byrjaður að skrifa -þó svo að það sé ekki skylda- og ættir þar með að vera komin með aðal átökin, eða í öðrum orðum, hvað lætur persónurnar gera það sem þær gera. Til þess að byrja með þarfnast þú ekki nákvæms söguþráðs, en þú munt þarfnast hann síðar, til þess að framvindan verði rökrétt.

9. Rísandi átök

Rísandi átök er röð uppákoma og gerðum sem leiðir að lokahápunktinum. Rísandi átök sýna einnig hvernig persónur þróast í gegnum söguna. Þessi hluti söguþráðarins er sá mikilvægasti, þar sem hann getur óvart leitt að veikum hápunkti ef skrifaður illa. Því skaltu láta persónur takast á við miklar áskoranir þar sem þær geta farið út fyrir þægindaramma sinn.

10. Hápunkturinn

Hér takast persónur þínar á við stæstu áskorun sína til þessa. Hér um bil allar skáldsögur innihalda hápunkt (Climax). Oft inniheldur hann allar persónur sögunnar og gerist í lok sögunnar. Það er á þessari stundu sem aðalpersónan virðist sigruð en tekst á við áskorunina fyrir hálfgert kraftaverk.

11.  Fallandi átök

Áður en bókin endar getur þú, ef þú vilt, látið átökin dvína eilítið. Þú getur sagt frá lífi persónanna eftir hápunktinn. Hér getur lífið komist aftur á réttan kjöl og orðið rólegra. Ekki vanmeta mikilvægi þessa parts, þar sem sögur sem ekki innihalda hann geta verið þær mest pirrandi og fráhrindandi.

12. Hugmyndaflugið fer aftur af stað

Á þessum tímapunkti, ættir þú að hafa einfalt yfirlit yfir söguþráðinn þinn. Ef svo er þá er komin tími til þess að skipuleggja hugsanir þínar. Ef þú vilt og getur skaltu búa til skissur, kort, tímalínur og jafnvel skrifa ljóð um söguna þína, allt til þess að koma þér í rétta skapið til þess að elska það sem þú hefur þróað. En ekki halda að vinnan sé búin. Þú hefur aðeins einfalda útlínu, það er auðvelt. Parturinn þar sem einfaldi söguþráðurinn verður að góðum söguþræði kemur í næsta skrefi.

13. Innleiddu lit

Tækni skrifa þinna geta verið misjöfn. Þú getur haft óvænt “plot twist” í lokin, notað fyrirbæri að nafni “Byssa Chekov’s (þegar hlutur sem leit út fyrir að skipta engu máli endar á því að leysa öll átök), eða hið umdeilda “Deux Ex Machina” (þegar lausn átaka birtist úr engu. “Við vorum að hrapa til dauða okkar en svo kom fljúgandi blá geit og bjargaði okkur.”). Með samsetningu af þessu ásamt orðtökum, viðlíkingum og persónulíkingum gefur þú söguþráðinum lit og færð það besta úr honum.

14. Hvíldu þig aðeins og horfðu yfir tilbúna söguþráðinn þinn.

15. Farðu aftur að vinna

Nú er kominn tími til þess að endurskrifa það sem þú ert komin/n með. Vertu viss um að það séu engar þversagnir eða annað órökrétt, til dæmis gagnvart eigin lögum og reglum. Passaðu að persónurnar séu alltaf eins (auðvitað þróast þær í gegnum söguna, en þurfa alltaf að hafa sömu hæð og hárlit og augnlit o.s.fr.). Finnir þú einn punkt sem eyðileggur alla söguna, ekki þá hafa áhyggjur af því að þurfa að skrifa allt aftur, þú vilt hafa þetta eins flott og auðið er.

16. Ef þú hefur ekki byrjað að skrifa er þetta líklegast til rétti tíminn. 

Gangi ykkur vel!

-DG

Heimildir: http://www.wikihow.com/Write-a-Good-Plot . Sótt 26/07/’15