The Maze runner – James Dashner

The maze runner

Just follow me and run like your life depends on it. Because it does.

Sagan fjallar um hóp drengja sem lifa í risastóru völundarhúsi, minnislausir og fangaðir af óþekktum aðilum. Á mánaðar fresti kemur nýr strákur upp með lyftunni sem færir þeim einnig fæði og fatnað, en þegar Thomas kemur upp með lyftunni einn daginn fara hlutir að breytast. Þegar furðulegir hlutir finnast og gerast í völundarhúsinu, meiri árangur fæst á nokkrum dögum en hefur í tvö ár, og lyftan færir þeim meira en bara mánaðarlegu byrgðir þeirra fara þeir að óttast hvað bíður þeirra.

Bókin er fyrst í þríleik sem hefur gripið athygli allra aldurshópa um allan heim og einnig er til fjórða bókin sem er forsaga þess sem gerist í þríleiknum. Þetta er spennandi og tilfinningaþrungin saga sem dregur mann með sér í ævintýri sem maður vill aldrei hætta að lesa um. Persónurnar eru vel hannaðar og skrifaðar, og auðvelt er að tengjast þeim og skilja þær. Staðurinn er vel útskýrður og mjög vel hannaður, svo maður getur tengst bókinni sérstaklega vel, þar sem auðvelt er að ímynda sér allt sem er að gerast. Ég mæli eindregið með þessum bókum, og vara þig við, þú munt ekki leggja bókina frá þér fyrr en hún klárast, og þá verður strax hlaupið í næstu.

Einnig er til álíka vinsæl bíómynd sem gerð var eftir bókinni, en þeir sem hafa lesið bókina hafa fátt gott að segja um þá mynd. Já, það er satt, myndin er ekkert smá vel gerð og leikin, en hún er ekki lík bókinni. Handritshöfundar virðast hafa lesið aftan á bókina, skilið söguþráðinn, en ekki nennt að lesa sjálfa bókina. Mæli með að horfa á myndina, þar sem hún er alveg sæmilega góð afþreying, en lestu bókina fyrst, og ímyndaðu þér bara að þetta sé sitthvor sagan. Það verður auðvelt, því það er fátt líkt með myndinni og bókinni 😉

– KBB

Leave a comment